Undirritun samstarfssamnings á milli Samskiptamiðstöðvar og Háskóla Íslands

Undirritun samstarfssamnings á milli Samskiptamiðstöðvar og Háskóla Íslands

Samstarfssamningur á milli Samskiptamiðstöðvar og Háskóla Íslands var undirritaður mánudaginn 21. janúar sl. Samningurinn miðar að því að efla rannsóknir á ÍTM og döff fræðum og kennslu í táknmálsfræði og táknmálstúlkun, sem og kynningu á íslensku táknmáli og menningarsamfélagi þeirra sem nota málið. Háskólinn hefur stutt mjög við eflingu ÍTM og átti ríkan þátt í viðurkenningu þess í lögum. Enn vantar marga velmenntaða sérfræðinga og fræðimenn á sviði ÍTM til þess að vinna að eflingu og þróun málsins og mæta þörfum barna og fullorðinna sem tala ÍTM fyrir þjónustu. Samningurinn felur í sér að Samskiptamiðstöð mun veita aðgang að rannsóknargögnum og sérfræðingar hennar munu sinna kennslu og rannsóknum í samstarfi við fræðimenn háskólans. Þá er stefnt er að því að samstarf stofnananna verði víkkað út á næstunni til annarra sviða Háskólans og þá einkum Menntavísindasviðs. Samningurinn er mikilvægur báðum stofnunum og byggir á um 15 ára samstarfi SHH og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Mun með samningnum samstarfið treyst ennfrekar og unnið að þróun og eflingu greina á sviði döff fræða innan háskólans.

Grein rituð þann 28.01.2019