Til hamingju með dag íslenska táknmálsins

Til hamingju með dag íslenska táknmálsins

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra óskar landsmönnum öllum til hamingju með dag íslenska táknmálsins. Sérstakar hamingjuóskir færum við félagsmönnum í Félagi heyrnarlausra en félagið fagnar 60 ára afmæli í dag, 11. febrúar 2020.

Á starfsárum félagsins hefur margt áunnist í baráttu döff fólks fyrir mannréttindum. Með stofnun Samskiptamiðstöðvar sem undirstofnun mennta- og menningarmálaráðuneytis var staða döff fólks sem mál- og menningarminnihlutahóps í íslensku samfélagi viðurkennd í íslenskum lögum. Í um þrjá áratugi hefur stofnunin unnið í góðu samstarfi við Félag heyrnarlausra í þágu döff fólks og íslensks táknmáls. Samskiptamiðstöð fagnar 30 farsælum starfsárum í lok þessa árs.

Í tilefni dags íslenska táknmálsins, á stórafmælisári bæði Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur Samskiptamiðstöð ákveðið að opna Táknmálslund í Heiðmörk. Samskiptamiðstöð hefur fengið úthlutað landnemaspildu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur þar sem Táknmálslundur mun rísa. Samskiptamiðstöð hefur fært félaginu að gjöf 60 tré, eitt fyrir hvert starfssár félagsins, og verða þau fyrstu trén sem gróðursett verða í Táknmálslundi á vordögum.

Það er afar brýnt, nú sem endranær, að stjórnvöld og allar þær stofnanir, nefndir og hagsmunasamtök sem vinna í þágu íslensks táknmáls snúi bökum saman og sýni það í verki að málhafar íslensks táknmáls í nútíð og framtíð njóti þeirra réttinda sem lög og alheimssáttmálar kveða á um. Félag heyrnarlausra og Málnefnd um íslenskt táknmál standa í dag fyrir ákaflega mikilvægum viðburði sem fær alla þessa aðila að sama borði til undirritunar sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra um rétt allra til táknmáls.

Táknmálsumhverfi er afar mikilvægt til þess að tryggja rétt til táknmáls og stuðla að áreynslulausri máltöku íslensks táknmáls. Táknmálslundur er hugsaður sem samveru- og áningarstaður táknmálssamfélagsins á Íslandi. Þar geta t.d. táknmálstalandi leik- og grunnskólabörn lært táknaforða um skógrækt og spjallað við táknmálstalandi eldri borgara um náttúruna á íslensku táknmáli. Þarna geta fjölskyldur, starfsmannahópar, vinahópar og aðrir sem tilheyra íslenska táknmálssamfélaginu komið saman og plantað trjám sem koma til með að veita framtíðarkynslóðum táknmálstalandi barna og fjölskyldum þeirra skjól til samverustunda. Í Táknmálslundi gefst því færi á að skapa táknmálsumhverfi til framtíðar.

Hver sá sem vill planta trjám í þágu íslensks táknmáls getur haft samband við Samskiptamiðstöð, sem kemur til með að annast samskipti við skógræktarfélagið og skipulagningu lundarins. Á hverju vori verður svo blásið til gróðursetningardags þar sem þeir sem vilja geta komið saman, plantað trjám og átt góða táknmálsstund saman.

Enn og aftur til hamingju með dag íslenska táknmálsins!

F.h. Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra

Kristín Lena Þorvaldsdóttir, forstöðumaður

Grein rituð þann 11.02.2020