Til hamingju með dag íslenska táknmálsins

Til hamingju með dag íslenska táknmálsins

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra óskar landsmönnum öllum til hamingju með dag íslenska táknmálsins. Ekki hvað síst félagsmönnum í Félagi heyrnarlausra sem á afmæli í dag, 11. febrúar, en fyrir ári var haldið upp á 60 ára afmæli félagsins.

Árið 2020 var ansi stórt afmælisár þar sem Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra átti einnig stórafmæli undir lok árs. Í tilefni 30 ára afmælis Samskiptamiðstöðvar var haldinn rafrænn viðburður þar sem ekki var hægt að hittast í raunheimum. Iðunn Ása Óladóttir, táknmálstúlkur var veislustjóri viðburðarins sem samanstóð af ávarpi mennta- og menningarmálaráðherra og forstöðumanns Samskiptamiðstöðvar auk þriggja fyrirlestra þar sem starfsemi Samskiptamiðstöðvar á undanförnum 30 árum var rifjuð upp.

Í tilefni dags íslenska táknmálsins viljum við birta afmælisfyrirlestrana þrjá. Fyrirlesararnir eru þær Júlía G. Hreinsdóttir, fagstjóri kennslu, Nedelina Ivanova, fagstjóri rannsókna og Árný Guðmundsdóttir, fagstjóri túlkunar. Fyrirlestrarnir eru hér til hliðar við textann í sömu röð og þeir eru nefndir hér að ofan.

Á síðu okkar, www.signwiki.is, verða birtar tvær nýjar greinar í tilefni dagsins. Önnur greinin er eftir Nedelinu. Hún er á ensku og er örstutt en hnitmiðuð þar sem farið er yfir grunnupplýsingar um ÍTM. Sjá grein hér.

Hin greinin er eftir Árnýju. Gerð var könnun á túlkun fyrir framan myndavélar, bæði í fundaformi og streymi þar sem sú tegund túlkunar hefur aukist margfaldlega síðastliðið ár. Skoðuð var reynsla túlkanna af breyttum vinnuaðstæðum og til dæmis við hvers konar aðstæður þessi tegund túlkunar hentar best. Sjá grein hér.

Síðastliðinn sunnudag var þátturinn Landinn á RÚV helgaður íslenska táknmálinu. Gísli Einarsson tók viðtöl við tvo af táknmálskennurunum okkar, þau Júlíu G. Hreinsdóttur og Uldis Ozols. Anna Dagmar Daníelsdóttir, táknmálstúlkur á Samskiptamiðstöð táknmálstúlkaði. Hægt er að horfa þáttinn á heimasíðu RÚV.is (smellið hér).

Ýmis viðburðir verða haldnir í tilefni dagsins af aðilum sem tengjast táknmálssamfélaginu á Íslandi, m.a. Félagi heyrnarlausra og Málnefnd um íslenskt táknmál.

Samskiptamiðstöð hvetur landsmenn til að kynna sér íslenskt táknmál á degi íslenska táknmálsins, t.a.m. með því að kíkja inn á www.signwiki.is

Grein rituð þann 11.02.2021