Táknmálslundur opnaður

Táknmálslundur opnaður

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fékk úthlutað eins hektara landnemaspildu í Heiðmörk hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur fyrr á þessu ári. Föstudaginn 25. september síðastliðinn, í alþjóðaviku döff, var Táknmálslundur formlega opnaður á þeirri landnemaspildu þegar vaskir starfsmenn Samskiptamiðstöðvar og félagsmenn í Félagi heyrnarlausra komu saman og gróðursettu þar 90 tré. Samskiptamiðstöð gaf Félagi heyrnarlausra 60 tré í tilefni 60 ára afmælis félagsins þann 11. febrúar sl. og Félag heyrnarlausra gaf Samskiptamiðstöð 30 tré í tilefni afmælis stofnunarinnar 31. desember nk.

Táknmálslundur er hugsaður sem samveru- og áningarstaður táknmálssamfélagsins á Íslandi. Skógrækt gefur færi á að efla anda og heilsu í þágu umhverfisverndar. Með árunum munu í Táknmálslundi vaxa tré sem koma til með að veita framtíðarkynslóðum táknmálssamfélagsins á Íslandi skjól til samveru í þágu verndar íslensks táknmáls.

Hver sá sem vill planta trjám í þágu íslensks táknmáls getur haft samband við Samskiptamiðstöð (shh@shh.is), sem kemur til með að annast samskipti við skógræktarfélagið og skipulagningu lundarins. Fólk getur sjálft keypt tré eða aðrar plöntur t.d. til að kolefnisjafna ferðalög eða til minningar um ástvin. Stefnt verður á að blása til gróðursetningardags á hverju vori þar sem því verður plantað sem safnast hefur á undanfarandi vetri.

Kort af Heiðmörk má finna hér: http://heidmork.is/kort/kort-af-heidmork/. Á kortinu er m.a. hægt að sjá alla vegi, gönguslóða, hjólastíga og gönguskíðabrautir á svæðinu. Til að komast að Táknmálslundi er hægt að beygja inn á Heiðmerkurveg bæði af Elliðavatnsvegi við Garðabæ og Þjóðvegi 1 við Rauðhóla. Hægt er að slá lengdar- og breiddargráðurnar 64°03'07.6"N 21°48'37.5"W inn á Google maps og finna þannig bestu leiðina að lundinum.

Grein rituð þann 05.10.2020