Svavar Gestsson fv. ráðherra látinn

Svavar Gestsson fv. ráðherra látinn

Við sendum fjölskyldu Svavars okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Svavar kom að stofnun Samskiptamiðstöðvar í ráðherratíð sinni. Hans aðkoma var ómetanleg og minntumst við þess nú á dögunum í tilefni 30 ára afmælis Samskiptamiðstöðvar.

Á vormánuðum 1989 skipaði Svavar Gestsson nefnd úr þremur ráðuneytum, menntamála-, félagsmála- og heilbrigðisráðuneyti. Nefndin átti að semja drög að reglugerð um starfsemi Samskiptamiðstöðvar og þar var lagt til að Samskiptamiðstöð heyrði undir félagsmálaráðuneytið skv. lögum um málefni fatlaðra. Bæði Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Svavar Gestsson menntamálaráðherra töldu að Samskiptamiðstöð ætti að heyra undir þeirra ráðuneyti.

Þar sem hlutverk Samskiptamiðstöðvar væri fyrst og fremst á sviðum menntunar til dæmis, kennslu, túlkunar og rannsókna töldu fleiri umsagnaraðilar að stofnunin heyrði undir menntamálaráðuneytið.

Svavar fylgdi því fast eftir að stjórnarfrumvarp um Samskiptamiðstöð yrði að lögum fyrir áramót 1990. Lögin voru samþykkt og skrifað undir á Bessastöðum 31. desember 1990. Má segja að þetta sé fyrsta opinbera viðurkenningin á íslensku táknmáli.

Svavar Gestsson skipaði Berglindi Stefánsdóttur sem fyrsta stjórnarformann Samskiptamiðstöðvar og Valgerði Stefánsdóttur sem fyrsta forstöðumann Samskiptamiðstöðvar.

Stofnunin átti að vinna að því að rjúfa einangrun heyrnarlausra í íslensku samfélagi og efla virðingu fyrir táknmáli og menningu heyrnarlausra. Einnig að vinna að rannsóknum á táknmáli, skráningu tákna, gerð kennsluefnis og vera miðstöð táknmálskennslu og túlkunar.

Með virðingu og þakklæti fyrir hans störf í þágu íslenska táknmálssamfélagsins

Starfsfólk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra


(Meðfylgjandi mynd var tekin í kaffisamsæti sem menntamálaráðherra bauð til þann 10. janúar 1991 vegna stofnunar Samskiptamiðstöðvar. Á myndinni eru þeir Svavar Gestsson, þáverandi menntamálaráðherra og Haukur Vilhjálmsson, þáverandi formaður Félags heyrnarlausra).

Grein rituð þann 20.01.2021