Mál verður til - Hugvísindaþing 2019

Mál verður til - Hugvísindaþing 2019

Mál verður til var málstofa um íslenskt táknmál sem haldið var þann 9. mars síðastliðinn.

Málstofan var hluti af Hugvísindaþingi 2019 og voru fyrirlesarar þær Valgerður Stefánsdóttir, fyrrum forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar, Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði við Háskóla Íslands og Nedelina Ivanova, málfræðingur á Samskiptamiðstöð.

Valgerður flutti fyrirlestur um uppruna og þróun ÍTM þar sem hún fjallaði um sögu og áhrifavalda þróunar málsins, ótrúlega samstöðu döff fólks sem skapar ÍTM og döff menningu í stöðugri baráttu við hugmyndfræði þeirra sem ráða.

Rannveig flutti fyrirlesturinn „Gott mál, rétt mál, mitt mál: Mælikvarðar og mállýskur í táknmálum“ þar sem hún fjallaði um breytileikann sem finna má í örmálsamfélagi íslenska táknmálsins og skýringa sem oft er leitað í félagslegum þáttum og þá ekki síst kynslóðamun. Spurningunni um hvort réttara væri að tala um einkamállýskur í einhverjum tilfellum var velt upp.

Nedelina flutti fyrirlestur um áhrif tvítyngis málhafa á þróun ÍTM. Hún benti á mikilvægi þess að fylgjast með breytingum sem ÍTM verður fyrir vegna áhrifa frá öðrum táknmálum þar sem 75% döff barna á aldrinum 1-9 ára á Íslandi eru af erlendum uppruna og móta þau því málið en ekki öfugt.

Aðsókn á málstofuna fór langt fram úr væntingum og var þétt setið.

Grein rituð þann 12.03.2019