ÍTM vasaorðabækur

ÍTM vasaorðabækur

Tveir nemendur í táknmálsfræði við Háskóla Íslands vinna nú hörðum höndum að verkefninu ÍTM-íslensk vasaorðabók handa foreldrum táknmálstalandi barna. Verkefnið er unnið í samstarfi við SHH og styrkt af nýsköpunarsjóði námsmanna í umsjá Rannís. Þetta er annað árið í röð sem veittur er styrkur fyrir þessu verkefni en árið 2020 var tveimur nemendum veittur styrkur til tveggja mánaða og í ár var ákveðið að styrkja verkefnið til þriggja mánaða.

Verkefnið verður unnið í júní, júlí og ágúst. Í byrjun september verða tilbúin drög að þremur ÍTM-íslensku vasaorðabókum til viðbótar við þær þrjár sem unnar voru í fyrra. Bækurnar verða með sama sniði og árið áður en hver bók mun innihalda 25 tákn og munu þau öll heyra undir sama þema. Þemun sem unnið verður með í ár eru: athafnir, lýsingarorð og fjölskyldan. Hverju tákni fylgir ljósmynd af fyrirbærinu sem táknið stendur fyrir, teikning af tákninu, jafnheiti á íslensku, handform og textalýsing sem lýsir myndun táknsins. Bækurnar eru byggðar á nýsjálenskri fyrirmynd (https://www.deaf.org.nz/resources/lets-talk-booklets) en við gerð bókanna hér á landi árið 2020 var ýmsum nýjungum bætt við sem tókust vel og verða því áfram nýttar í ár. Sem dæmi um nýjung mun hverju tákni fylgja QR kóði sem hægt er að skanna í gegnum snjallsíma og þá kemur upp myndband af tákninu á SignWiki. Einnig fer röðun tákna eftir handrófsröð ÍTM sem er nýjung.

Að verkefninu í ár koma þau Bryn Nóel Francis og Birta Björg Heiðarsdóttir en Bryn Nóel sér um allar teikningar sem verða í bókunum. Birta sér um uppsetningu verkefnisins sem og lýsingar á táknunum með aðstoð Nedelinu Ivanovu, umsjónarmanni verkefnisins.

Markmið verkefnisins er að sjá foreldrum táknmálstalandi barna fyrir efni á ÍTM og við bindum einnig miklar vonir við að vasaorðabókin verði áhugasömum hvatning til að byrja læra íslenskt táknmál.

Grein rituð þann 24.06.2021