Haustið fer vel af stað

Haustið fer vel af stað

Haustið fer vel af stað hjá okkur á Samskiptamiðstöð og nóg um að vera.

Á mánudaginn var hófst kennsla í Táknmál 1 sem er kennsla í ÍTM fyrir byrjendur. Okkur þykir einkar ánægjulegt að geta aftur tekið á móti gestum hingað á SHH en sl. ár kenndum við þessi námskeið í fjarkennslu.

Í dag hefst kennsla í íslensku táknmáli fyrir foreldra og fjölskyldur döff barna. Síðasta vetur hafa kennarar á SHH verið að innleiða og aðlaga nýtt námsefni frá Hollandi sem er sérstaklega ætlað þessum hópi. Þetta námsefni hefur reynst foreldrum döff barna í Hollandi afskaplega vel og verið mjög árangursríkt.

Í næstu viku byrjar svo námskeið hér á SHH sem er ætlað döff innflytjendum sem vilja öðlast betri færni í íslensku táknmáli. Á þessu námskeiði verða undirstöðuatriði ÍTM kennd. Námskeiðið byrjar 14. september og lýkur 4. nóvember og er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála.

Táknmálstúlkarnir okkar eru að venju á ferð og flugi út um allan bæ að túlka þar sem þeirra er þörf. Þann 1. september sl. urðu þáttaskil í þjónustu við döff á Íslandi þegar táknmálstúlkun á aðalfréttatíma RÚV hófst. Munu túlkar á Samskiptamiðstöð sjá um þá túlkun.

Grein rituð þann 08.09.2021