Handformaveggspjald

Handformaveggspjald

Starfsfólk Samskiptamiðstöðvar heimsótti á dögunum Hlíðaskóla og Leikskólann Sólborg og færði táknmálstalandi börnum í skólunum tveimur handformaveggspjöld að gjöf. Handformaveggspjaldið hefur að geyma myndir af 33 handformum úr íslensku táknmáli. Starfsfólki Samskiptamiðstöðvar var vel tekið á báðum stöðum og það var ánægjulegt að sjá jákvæð viðbrögð bæði barna og starfsfólks við veggspjaldinu. Hlíðaskóli og Sólborg voru fyrstu skólarnir sem fengu veggspjald að gjöf frá Samskiptamiðstöð í tilefni 30 ára afmælis stofnunarinnar en til stendur að gefa öllum leik- og grunnskólum á landinu veggspjald í von um að það kveiki áhuga barna og unglinga á íslensku táknmáli og bæti viðhorf þeirra til málsins og menningarsamfélags þess. Thorvaldsensfélagið styrkir dreifingu veggspjaldanna um allt land.

Hvert tákn í íslensku táknmáli er myndað úr nokkrum breytum sem kallast handform, hreyfing, myndunarstaður, afstaða og látbrigði. Á meðfylgjandi veggspjaldi má finna 33 þeirra handforma sem notuð eru í íslensku táknmáli. Þessi handform mynda handróf íslensks táknmáls sem er sambærilegt stafrófi íslenskunnar og byggir þessi fjöldi handforma á rannsóknum sem unnar hafa verið á stofnuninni af Kristínu Lenu Þorvaldsdóttur, málfræðingi og forstöðumanni og Nedelinu Ivanovu, málfræðingi og fagstjóra rannsókna. Teikning af fyrirbæri er við hvert þessara handforma. Hver teikning stendur fyrir tákn sem myndað er með því handformi sem teikningin stendur við. Uldis Ozols, myndlistarmaður og táknmálskennari teiknaði bæði myndir af handformum og fyrirbærum. Hönnun handformaplaktsins var í höndum Helgu Gerðar Magnúsdóttur, grafísks hönnuðar hjá Marginalia og var hönnunin styrkt af Barnavinafélaginu Sumargjöf.

Samskiptamiðstöð heldur úti vefsíðunni www.signwiki.is en þar er að finna myndbönd af rúmlega 11 þúsund táknum úr íslensku táknmál ásamt ýmsum fróðleik um tungumálið og menningu táknmálstalandi fólks. Þar er hægt að fletta upp íslensku orði fyrir hvert þeirra fyrirbæra sem teiknað er á veggspjaldið til að sjá hvernig táknin eru mynduð.

Grein rituð þann 22.06.2021