Fyrirlestur var haldinn um íslensk mannanöfn í íslensku táknmáli

Fyrirlestur var haldinn um íslensk mannanöfn í íslensku táknmáli

Fræðslufundur á vegum Nafnfræðifélagsins var haldinn laugardaginn 23. mars síðastliðinn.

Kristín Lena Þorvaldsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra flutti fyrirlestur sem hún nefndi Íslensk mannanöfn í íslensku táknmáli.


Í fyrirlestrinum fjallaði Kristín Lena um svokölluð nafnatákn í íslensku táknmáli. Nafnatákn gegna sams konar hlutverki í íslensku táknmáli og mannanöfn í íslensku. Þeir sem tilheyra íslenska táknmálssamfélaginu, eða tengjast því á einhvern hátt fá nafnatákn, auk nokkurra þjóðþekktra einstaklinga. Myndun nafnatákna lýtur sömu reglum og myndun annarra tákna í íslensku táknmáli en ákveðnar sérreglur gilda þó um nafngiftina. Samanburður nafnatákna í íslensku táknmáli og mannanafna í íslensku þótti áhugaverður og af honum að dæma er ljóst að þótt sömu reglur gildi að miklu leyti um nafngift í báðum tungumálum þá hafa nafnatákn í íslensku táknmáli ákveðna sérstöðu. Þau eru mynduð fyrir hvern og einn en eru ekki valin úr takmörkuðum nafnabanka líkt og mannanöfn í íslensku.

Fyrirlesturinn var vel sóttur.


Grein rituð þann 26.03.2019