Málfræði

Rannsóknir á málfræði íslensks táknmáls hófust með formlegum hætti við stofnun Samskiptamiðstöðvar. Rannsóknirnar voru hagnýtar og voru þær hvergi birtar í ritrýndum tímaritum eða bókum en þær voru nýttar í kennslu og námsefnisgerð.

Á undanförnum árum hafa fræðilegar málvísindarannsóknir aukist til muna og hafa þær í auknum mæli verið unnar í samstarfi við fræðimenn í táknmálsfræði, almennum málvísindum og íslensku við Háskóla Íslands undir formerkjum Rannsóknastofu í táknmálsfræðum. Þá hafa einnig, á undanförnum árum, verið unnar málfræðirannsóknir í samstarfi við erlenda aðila og rannsóknir Samskiptamiðstöðvar verið kynntar á erlendum vettvangi.

Niðurstöður málfræðirannsókna eru margar hverjar hluti af lokaverkefnum í framhaldsnámi þeirra fræðimanna sem lagt hafa stund á rannsóknir á íslensku táknmáli. Undanfarið hefur það færst í aukana að birta rannsóknarniðurstöður í ritrýndum greinum í tímaritum eða bókum. Þær eru kynntar í fyrirlestrum og á veggpsjöldum á ráðstefnum, bæði hérlendis og erlendis. Þá hafa greinar einnig verið birtar á SignWiki. Niðurstöður málfræðirannsókna hafa einnig verið nýttar í kennslu og námsefnisgerð á öllum skólastigum, einna helst við Háskóla Íslands.

Upplýsingar um birtar málfræðirannsóknir sem gerðar hafa verið á íslenska táknmálinu má finna hér.