Máltaka og málþroski

Meginmarkmið málþroskarannsókna á Samskiptamiðstöð er að fá betri skilning á máltöku barna í gegnum íslenskt táknmál.

Í upphafi voru gerðar hagnýtar athuganir á málþroska í ÍTM til að styðja ráðgjöf og málörvun. Fyrsta fræðilega rannsóknarverkefnið á málþroska var Málþroski barna sem alast upp við tvítyngi táknmáls og íslensku unnið í samstarfi Samskiptamiðstöðvar og Valdísar Ingibjargar Jónsdóttur. Verkefnið var styrkt af Rannís og var markmiðið að þróa mælitæki til þess að meta málþroska á táknmáli og afla þekkingar á máltöku og málþróun tvítyngdra barna með bakgrunn íslensks táknmáls og íslensku.

Nú er unnið að ýmsum verkefnum á þessu sviði:

  • Ýmis próf og greiningartæki eru þróuð til þess að meta færni í ÍTM.
  • Gert er færnimat þar sem skoðuð er málkunnátta (hljóðkerfis-, orðhluta-, setninga- og merkingarfræði), málnotkun (málskilningur og máltjáning) og hugarkenning (e. Theory of Mind).
  • Niðurstöðum úr færnimati er safnað með það að markmiði að útbúa viðmið fyrir aldurssvarandi málþroska og staðla greiningarpróf fyrir ÍTM.
  • Aðferðir við málörvun á ÍTM eru prófaðar og þróaðar.