Ráðgjöf og fræðsla

Samskiptamiðstöð veitir fræðslu og ráðgjöf til hagsmunahópa, stofnana og annarra er sinna þjónustu við þá sem nota íslenskt táknmál til samskipta. Stofnunin skal veita almennar upplýsingar um íslenskt táknmál og táknmálssamskipti. Hún skal eiga samstarf við félagasamtök og opinbera aðila er fjalla um málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra, þ. á m. félagsþjónustu sveitarfélaga, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, skóla, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Menntamálastofnun.

Stofnunin sinnir í því skyni ýmiss konar kennslu og fræðslu á starfssviði sínu og stendur fyrir málstofum og kynningum. Þegar þörf er á er veitt einstaklingsbundin handleiðsla og ráðgjöf til þeirra sem vinna við að veita fólki með skerta heyrn og táknmálstalandi fólki beina þjónustu.

Ráðgjöf beinist einnig að því að styðja fjölskyldur og fagfólk við að þróa með sér sérstaka færni í samskiptum á íslensku táknmáli. Þannig má efla þjónustu og vinna að máltöku, menntun og þátttöku barna og fullorðinna sem tala íslenskt táknmál.

Fólk hefur meðal annars óskað eftir fræðslu eða ráðgjöf um samskipti, máltöku, snemmtæka íhlutun, kennslu á íslensku táknmáli, tvítyngi, kennslu íslensku sem annars máls, snertitáknmál, túlkaþjónustu og þátttöku, námsmat, greiningar og gerð einstaklingsáætlana.

Á signwiki.is má meðal annars finna fræðslu um táknmál, döff málsamfélag, menningu og sögu. Nánari upplýsingar um ráðgjöf og fræðslu veitir sviðsstjóri táknmálssviðs taknmalssvid[hjá]shh.is.