Varðveisla og söfnun

Samskiptamiðstöðin hefur frá upphafi lagt metnað í að safna málsýnum af íslensku táknmáli á myndband. Í safninu er að finna fjölbreytt efni og málsýni frá um 200 málhöfum á ýmsum aldri. Þar er fjallað um líf og starf döff fólks og málið frá hverjum tíma er varðveitt.

Meðal efnis er viðtöl við málhafa á ýmsum aldri, frásagnir, námsefni og barnaefni. Auk þess eru yfir 10 þúsund upptökur af stökum táknum, sem tekin hafa verið upp fyrir SignWiki og önnur myndbönd fyrir vefinn. Ýmsar upptökur eru frá stærri og smærri viðburðum þar sem táknmál er talað.

Gagnasafnið varðveitir þannig málsýni úr íslensku táknmáli, menningu, sögu og lífsbaráttu döff fólks. Tilgangur með söfnuninni er bæði þjóðfræðilegur og málfræðilegur og stöðugt er unnið að því að bæta við safnið. Safnið er á stafrænu formi og markmiðið er að það verði aðgengilegt og leitarbært eftir t.d. efni, málhöfum, aldri og málfræðiatriðum. Safnið ætti fyrst og fremst að nýtast málfræðingum við að skapa málheild fyrir íslenskt táknmál en nýtist einnig kennurum og öðrum fræðimönnum til dæmis á sviði mannfræði og sagnfræði.